Rúnar Kárason varð í kvöld í annað sinn Íslandsmeistari með Fram en 19 ár eru liðin síðan hann vann titilinn fyrst með uppeldisfélagi sínu. Í millitíðinni fagnaði Rúnar Íslandsmeistaratitli með ÍBV fyrir tveimur árum áður en hann klæddist bláa búningnum á nýjan leik.
„Þetta er alveg jafn drullu sexý og það var fyrir 19 árum að verða Íslandsmeistari. Á þeim tíma var ég jafngamall Marel [Baldvinssyni liðsfélaga]. En það er svo sannarlega gaman að vinna titilinn með Fram. Ég get ekki beðið um meira,“ sagði Rúnar kampakátur í viðtali við handbolta.is að leikslokum í kvöld.
Feginn að hafa klára þetta
„Ég er rosalega feginn að við náðum að sigla þessu heim í kvöld. Valsliðið er gott og ef það hefði fengið blóð á tennurnar er ég viss um að næstu leikir hefði getað orðið krefjandi,“ sagði Rúnar ánægður með að hafa náð að loka einvíginu án taps.
Þykir vænt um þetta dæmi
„Ég vil sjá Fram við toppinn í handboltanum og er þess vegna að leggja mitt lóð á vogarskálarnar, ekki bara innanvallar heldur einnig utan. Mér þykir mjög vænt um þetta dæmi,“ sagði Rúnar sem ætlar að minnsta kosti að taka eitt tímabil í viðbót með Fram.
Heldur áfram
„Ég verð með á næsta tímabili. Lengra hugsar maður ekki kominn á þennan aldur. Ég er viss um að við verðum álíka góðir á næsta tímabili,“ sagði Rúnar Kárason hinn þrautreyndi handknattleikmaður Fram, Íslands- og bikarmeistari.