- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tveir kostir um þjóðarhöll í Laugardal

55 ár eru liðin síðan Laugardalshöll var tekin í notkun. Hún er fyrir löngu hætt að uppfylla kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra kappleika í handknattleik og körfuknattleik. Mynd/HSÍ Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Í skýrslu starfshóps um byggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir er það afgerandi niðurstaða að húsið skuli rísa í Laugardal. Er bent á þrjá kosti á svæðinu en ekki tekin afstaða til þeirra.

Skýrslan var lögð fram á fundi Borgarráðs á þriðjudaginn. Menntamálaráðherra og borgarstjóri hafa óskað eftir því að hópurinn starfi áfram og vinni ítarlega rekstrar- og tekjuáætlun fyrir verkefnið.



Lagðir voru til kostir um stærð væntanlegrar íþróttahallar sem gæti rúmað 5.000 áhorfendur og hinsvegar 8.600 og þá allt að 12 þúsund á tónleikum en í vinnu nefndarinnar var sjónum beint að því að húsið gæti nýst til fleiri viðburða en þeim sem tengjast íþróttum. Með því fengist betri nýting á húsinu. Einnig er bent á fleiri möguleika til nýtingar á mannvirkinu.

Talið er að um 800 milljónum króna dýrara sé að reisa stærri höllina en kostnaður er metinn frá 7,9 milljörðum til 8,7 milljarða.

„Kannaður var möguleiki á samnýtingu við þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu. Lausleg könnun leiddi í ljós að ekki eru mörg íþróttamannvirki í Evrópu sem hafa verið byggð saman. Það gefur sterka vísbendingu um að samlegðaráhrif séu ekki nægilega mikil og hugsanlega gæti það valdið árekstrum á öðrum sviðum rekstrar,“ segir m.a. í skýrslu starfshópsins sem m.a. fundaði með Guðna Bergssyni, formanni Knattspyrnusambands Íslands.

Auk Laugardals voru skoðaðir kostir þess að byggja þetta íþróttamannvirki á íþróttasvæði Fram í Safamýri, á íþróttasvæði Vals við Hlíðarenda og í Vetrarmýri í Garðabæ. Ekki þóttu þeir kostir fýsilegir.

Laugardalshöll, sem opnuð var fyrir 55 árum, er fyrir löngu orðin barn síns tíma og uppfyllir ekki lengur  þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra kappleikja í handknattleik og körfuknattleik. Hafa Íslendingar verið árum saman á undanþágu til að standa fyrir og hýsa leiki í undankeppni Evrópu- og heimsmeistaramóta í báðum íþróttagreinum auk þess sem landslið Íslands í öllum aldursflokkum fyrrgreindra íþrótta á sér hvergi fastan samastað til æfinga.

Í starfshópnum sátu Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ sem jafnframt var formaður hópsins, Óskar Þór Ármannsson og Marta Skúladóttir mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ómar Einarsson og Sif Gunnarsdóttir tilnefnd af Reykjavíkurborg, Lárus Blöndal forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Hannes Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ).

Skýrsla starfshópsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -