„Portúgalar eru hörkusterkir og ljóst að við verðum að eiga góðan dag til að vinna,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U19 ára landsliðs karla í handknattleik við handbolta.is um næsta leik liðsins Evrópumótinu í Króatíu. Í dag mætir íslenska landsliðið liðsmönnum portúgalska landsliðsins í viðureign sem ræður úrslitum um hvort liðanna leikur um fimmta sæti mótsins á sunnudag. Tapliðið leikur um sjöunda sætið gegn annað hvort Dönum eða Svíum.
Flautað verður til leiks Íslands og Portúgals í Varazdin í Króatíu klukkn 13.15. Beint útsending og endurgjaldslaus verður á ehftv.com. Textalýsing verður á handbolti.is.
Undanúrslit: Þýskaland - Spánn kl. 15.30. Slóvenía - Króatía kl. 18. Sigurliðin leika til úrslit á sunnudaginn kl. 15. Tapliðin mætast í leik um bronsið sama dag kl. 12.30. Leikið í Varazdin.
„Portúgalar fóru illa með Dani á miðvikudaginn og unnu sannfærandi sigur með fjögurra marka mun, 31:27. Sú viðureign varð aldrei spennandi. Danska liðið var meðal annars fimm mörkum undir í hálfleik,“ sagði Heimir sem telur sig hafa náð íslenska hópnum upp á lappirnar eftir slakan leik gegn Spánverjum á miðvikudaginn.
5.-8. sæti: Svíþjóð - Danmörk kl. 11. Portúgal - Ísland kl. 13.15. Sigurliðin leika um 5. sætið á sunnudaginn kl. 10.15. Tapliðin mætast í leik um 7. sæti sama dag kl. 8 árdegis. Leikið í Varazdin.
„Menn koma einbeittir í þennan leik við Portúgal. Það er allt eða ekkert hjá okkur og menn selja sig dýrt. Við viljum að minnsta kosti fá góðan leik og vonandi verða úrslitin í samræmi við það. Nú eru aðeins tveir leikir eftir hjá okkur í mótinu og ekkert annað í stöðunni en að fá sem mest út úr þeim,“ sagði Heimir ákveðinn.
9.-12. sæti: Ungverjaland - Noregur kl. 15.30. Frakkland - Ítalía kl. 17.45. Sigurliðin leika um 9. sætið á morgun, laugardag. Tapliðin mætast í leik um 11. sæti sama dag. Leikið í Koprivnica.
Eina spurningamerkið í íslenska hópnum fyrir leikinn í dag er staðan á Ísak Gústafssyni. Hann fékk slæma byltu og högg á lærið í leiknum við Svía á þriðjudaginn. „Ég vona að Ísak geti eitthvað verið með okkur í Portúgalsleiknum,“ sagði Heimir en taldi endanlega stöðu á Ísak ekki skýrast fyrr en rétt áður en á hólminn verði komið.
13.-16. sæti: Ísrael - Rússland kl. 11. Austurríki - Serbía kl. 13.15. Sigurliðin leika um 13. sæti á morgun, laugardag. Tapliðin mætast í leik um 15. sæti sama dag. Leikið í Koprivnica.