- Auglýsing -
- Úkraínska stórskyttan Ihor Turchenko hefur samið við franska liðið HBC Nantes til næstu tveggja ára. Turchenko hefur verið í herbúðum Limoges í Frakklandi undanfarin tvö ár.
- Florentin Pera, þjálfari rúmenska kvennalandsliðsins í handknattleik, hefur bætt á sig öðru starfi. Hann verður þjálfari rúmenska félagsliðsins SCM Ramnicu Valcea á næstu leiktíð. Pera þekkir vel til hjá félaginu. Hann þjálfaði það frá 2018 til 2021. Undir stjórn vann SCM Ramnicu Valcea rúmenska meistaratitilinn í kvennaflokki 2019.
- Danska landsliðskonan Kaja Kamp Nielsen hefur samið til eins árs við þýska liðið Borussia Dortmund. Hún hefur síðustu fimm ár leikið með Esbjerg.
- Franska handknattleiksliðið Nantes Handball verður eingöngu með áhugamannalið í kvennahandknattleik á næstu leiktíð. Nantes komst í undanúrslit Evrópudeildar kvenna vorið 2024 en missti sinn helsta styrktaraðila eftir leiktíðina og hefur ekki náð öðrum jafn öflugum í staðinn. Eftir talsverðan niðurskurð fyrir síðustu leiktíð tókst að halda úti liði. Nú segja forráðamenn félagsins að lengra verði ekki gengið með atvinnumannalið vegna þess að ekki hafi tekist að afla nægs fjármagns.
- Afar strangt eftirlit er með rekstri handknattleiksfélaga í Frakklandi eftir mörg gjaldþrot félaga í lok síðustu aldar.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Daniel Sarmiento hefur ákveðið að leggja keppnisskóna á hilluna, 41 árs gamall. Á öðrum áratug aldarinnar var Sarmiento í stóru hlutverki hjá Barcelona og spænska landsliðinu.
- Sarmiento varð heimsmeistari 2013 og vann spænska meistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu með Barcelona oftar en einu sinni. Síðar lék Sarmiento í Frakklandi og í Póllandi. Undanfarin ár hefur leikstjórnandinn snjalli leikið með CB Gáldar í þriðju efstu deild á Spáni og leiðbeint ungu handknattleiksfólki. Hann ætlar að halda því áfram en hætta sjálfur keppni.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -