Félagaskipti Janusar Daða Smársonar til ungversku bikarmeistaranna Pick Szeged fyrir síðasta keppnistímabil eru metin þriðju bestu félagaskipti leiktíðarinnar í árlegu uppgjöri Handball-Planet sem birt var í gær. Þar er lagt mat á 15 bestu félagaskipti leiktíðarinnar eftir að rýnt hefur verið í framgöngu leikmanna og hverju þeir skiluðu til nýrra vinnuveitenda.
Janus Daði og Lazar Kukic, sem gengu til liðs við Pick Szeged síðasta sumar, eru sagðir hafa breytt leik liðsins til hins betra. Það hafi verið hársbreidd frá að slá Barcelona út í átta liða úrslitum Meistaradeildar auk þess að vinna ungverska bikarinn og tapa naumlega fyrir One Veszprém í úrslitum um meistaratitilinn í Ungverjalandi. Kukic er næstur fyrir ofan Janus Smára í umræddri samantekt.
Serradilla efstur
Áhugavert er að sjá að bestu félagaskiptin að mati Handball-planet var koma Spánverjans Antonio Serradilla til SC Magdeburg frá Elverum. Serradilla staldraði hinsvegar aðeins við í eitt tímabil hjá Magdeburg. Hann lék sinn síðasta leik með liðinu þegar liðið vann Meistaradeild Evrópu í Köln um miðjan síðasta mánuð. Sevillabúinn verður leikmaður Stuttgart þegar keppnistímabilið hefst í Þýskalandi í lok ágúst.
Hér má sjá listann yfir 15 bestu félagaskiptin á síðustu leiktíð.