Áfram eru vangaveltur um framtíð landsliðsmannsins Andra Más Rúnarssonar. Ellefu dagar eru þangað til SC DHfK Leipzig kemur saman á ný til æfinga ef skipulagi verði haldið. Reyndar hefur ekki enn verið tilkynnt hver taki við þjálfun liðsins af Rúnari Sigtryggssyni sem var sagði upp fyrir fjórum vikum.
Þrír hafa verið orðaðir við starfið, Oscar Carlén, Nicolej Krickau og nú síðast Raul Alonso. Tveir þeirra eru samningbundnir, Carlén og Alonso og ekki kostnaðarlaust að tryggja sér starfskrafta þeirra. Ofan á annað þykir margt í umhverfi félagsins ekki vera spennandi fyrir þjálfara að ganga inní, eftir því sem handbolti.is hefur heyrt á skotspónum.
Framtíð Andra Más hjá SC DHfK Leipzig er í óvissu eins og handbolti.is hefur drepið á oftar en einu sinni upp á síðkastið. Hann er sagður vilja losna undan samningi við félagið. Vandinn er sá að hann á eitt ár eftir af samningstíma sínum. Reyndar sagði Rúnar faðir hans í samtali við Sýn á dögunum að Andri væri með uppsagnarákvæði í samningi sínum.
Að sögn SportBild í dag þykir það ekki fýsilegt fyrir félagið að halda í óánægðan leikmann. Á móti kemur að liðið hefur ekki úr mörgum leikstjórnendum að ráða um þessar mundir og því ljóst að liðið mun ekki sleppa Andra Má nema að fá eitthvað í aðra hönd til að ná í leikmann í staðinn. Ofan á annað er ekki heiglum hent að krækja í sterkan leikmann í burðarhlutverki skömmu áður en keppnistímabil hefst. Luca Witzke hefur gengið til liðs við Flensburg, Simon Ernst verður frá vegna meiðsla fram eftir næstu leiktíð og Matej Klima er að jafna sig eftir hnémeiðsli.
Erlangen er áhugsamt
Sem fyrr segir SportBild að HC Erlangen hafi áhuga á Andra Má en áður hefur fréttamiðilinn þýski nefnt PSG í Frakklandi og danska liðið GOG til sögunnar.
Hver veit nema að málin skýrist í komandi viku?