- Auglýsing -

Léttir að þessu máli er loksins lokið

- Auglýsing -


„Ég ætla að taka gott frí og hvíla hausinn en hef í staðinn haft þetta mál hangandi yfir mér allt fríið. Það er því léttir að þessu er loksins lokið,“ sagði Andri Már Rúnarsson landsliðsmaður í samtali við handbolta.is eftir að hann hafði lokið vistaskiptum sínum í Þýskalandi frá SC DHfK Leipzig til HC Erlangen en síðustu rúmar fjórar vikur hefur verið unnið að málinu.

Loksins fannst lausn sem allir gátu lifað við

Ákvað strax að fara

„Ég ákvað í vor að fara frá Leipzig. Eftir það tók við ákveðið ferli svo ég gæti losnað. Það var ekki fyrr en nýlega sem fór að sjást fyrir endann á þessu. Loksins fannst lausn sem allir gátu lifað við,“ sagði Andri Már sem átti ár eftir af samningi sínum við SC DHfK Leipzig. Andri Már var með ákvæði í samningi sínum við SC DHfK Leipzig um að losna yrði föður hans, Rúnari Sigtryggsyni, sagt upp þjálfarastarfinu hjá Leipzig. Það gerðist rétt fyrir miðjan júní, nokkrum dögum eftir að keppnistímabilinu lauk í Þýskalandi.

Fyrst og fremst léttir að málið er í höfn svo ég geti einbeitt mér að æfingum og keppni í handbolta á nýjan leik, standa mig vel og bæta mig

Tvö ár – vænlegasti kosturinn

Andri Már skrifaði undir tveggja ára samning við HC Erlangen sem með bækistöðvar í Nürnberg. Hann segir Erlangen-liðið hafa verið vænlegasta kostinn sem honum stóð til boða.

„Það er fyrst og fremst léttir að málið er í höfn svo ég geti einbeitt mér að æfingum og keppni í handbolta á nýjan leik, standa mig vel og bæta mig.“

Andri Már verður 23 ára 21. ágúst. Hann byrjaði ungur að æfa og leika með unglingaakademíu SC DHfK Leipzig en gekk til liðs við Stjörnunar 2018 og var hjá liðinu í tvö ár. Leiktíðina 2020/2021 var Andri Már með Fram en gekk til liðs við Stuttgart og var í eitt ár, 2021 - 2022. Andri Már flutti heim og lék með Haukum 2022 - 2023 uns hann samdi við SC DHfK Leipzig sumarið 2023, eftir að hafa slegið í gegn með U21 árs landsliði Íslands á HMU21 árs hvað íslenska liðið hreppti bronsverðlaun.
Andri Már lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Grikkjum í Chalkida í mars. Landsleikir hans eru fjórir.

Mættur til Erlangen

Andri Már hefur verið heima á Íslandi síðustu fjórar vikur og haldið sér við með æfingum samhliða samveru með fjölskyldu og vinum. Hann fór hinsvegar til Þýskalands á dögunum til þess að hnýta síðustu endana með umboðsmanni sínum. Andri Már lauk í morgun nauðsynlegu eftirliti, t.d. heilsufarslegum, áður en æfingar hefjast á fullu. Aðrir leikmenn HC Erlangen komu saman til fyrstu æfinga á síðasta sunnudag.

Ég tel að liðið eigi meira inni en það sýndi lengi vel í fyrra

Óttast ekki basl

Erlangen var í basli alla síðustu leiktíð en tókst að halda sæti sínu í efstu deild þýska handknattleiksins eftir mikinn endasprett. Andri Már óttast ekki að svipað verði upp á teningnum á komandi tímabili.

„Mér líst bara mjög vel á Erlangen-liðið. Ég tel að liðið eigi meira inni en það sýndi lengi vel í fyrra. Ef horft er á síðari hluta tímabilsins þá var mikill stígandi í leik liðsins sem ég tel að muni halda áfram þegar við hefjum nýja leiktíð. Um leið vinn ég í að verða sá besti leikmaður sem ég get verið,“ sagði Andri Már Rúnarsson handknattleiksmaður hjá HC Erlangen í samtali við handbolta.is í dag.

Andri Már verður þriðji íslenski handknattleiksmaðurinn til að leika með HC Erlangen. Sigurbergur Sveinsson reið á vaðið leiktíðina 2014/2015 þegar félagið átti í fyrsta sinn lið í efstu deild. Viggó Kristjánsson gekk til liðs við félagið um síðustu áramót og nú Andri Már.
Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfaði HC Erlangen 2017 til 2020. Ólafur Stefánsson var aðstoðarþjálfari hjá liðinu 2022 til 2023.
Sveinn Jóhannsson samdi við HC Erlangen fyrir nokkrum árum en lék ekki með liðinu þegar á hólminn var komið. Meiðsli komu í veg fyrir að samningur Sveins tók ekki gildi.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -