Hornamaðurinn Dagur Gautason hefur ákveðið að snúa á ný til Noregs og ganga til liðs við úrvalsdeildarliðið ØIF Arendal. Dagur staðfesti komu sína til félagsins við Handkastið.
Dagur lék með ØIF Arendal frá haustinu 2023 þangað til í febrúar á þessu ári þegar hann var seldur til Montpellier. Með franska liðinu varð Dagur bikarmeistari í vor.
Samningur Dags við Montpellier var aðeins til nokkurra mánaða. Hann hljóp í skarðið fyrir Svíann Lucas Pellas sem sleit hásin. Félagið sótti hornamann í skamman tíma vegna meiðslanna en þegar samningurinn rann út í vor staðfesti Dagur við handbolta.is að hann væri í leit að öðru félagi til þess að leika fyrir.
Dagur gerði það gott með ØIF Arendal og var margoft valinn leikmaður mánaðarins og var í úrvalsliði norsku úrvalsdeildarinnar leiktíðina 2023/2024. Áður en Dagur fór til Noregs 2023 lék hann með KA og Stjörnunni.