- Auglýsing -

Stelpurnar unnu bronsið – frábær sigur á Hollandi

- Auglýsing -


Stúlknalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, náði þeim stórkostlega árangri að vinna bronsverðlaun á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje í Norður Makedóníu í dag. Liðið vann það hollenska, 31:26, í úrslitaleik um bronsið eftir frábæran leik, ekki síst í síðari hálfleik. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt landslið vinnur til verðlauna á handknattleikskeppni hátíðarinnar í kvennaflokki. Hátíðin er haldin annað hvert ár.


Eftir jafnan fyrri hálfleik náði hollenska liðið þriggja marka forskoti, 13:10, eftir nærri 20 mínútur. Við svo búið mátti ekki sitja af hálfu íslenska liðsins sem sneri vörn í sókn og var marki yfir í hálfleik, 16:15.

Framan af síðari hálfleik var jafnt á metum með liðunum. Þegar 10 mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 24:24. Þá tók við frábær kafli í vörn sem sókn. Íslensku stúlkurnar skoruðu sex mörk gegn einu á liðlega fimm mínútum. Laufey Helga Óskarsdóttir skoraði 30. markið, 30:25, þegar rétt innan við fimm mínútur voru eftir. Kórónaði hún þar með stórleik sinn. Örvæntingafullar tilraunir hollenska liðsins á síðustu mínútum, jafnt í vörn sem sókn, tókust ekki og Ísland vann glæsilegan sigur.

Síðast en ekki síst fór markvörðurinn Danijela Sara Björnsdóttir hamförum í leiknum og varði 18 skot. Lokaði hún markinu á köflum.

Næst á dagskrá hjá U17 ára landsliðinu er að ferðast yfir til Svartfjallalands og taka þátt í Evrópumótinu sem hefst 30. júlí. Leikirnir fimm á Ólympíuhátíðinni eru sannarlega gott veganesti fyrir stórmótið.

Mörk Íslands: Laufey Helga Óskarsdóttir 12, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 5, Ebba Guðríður Ægisdóttir 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Rva Lind Tyrfingsdóttir 2, Hekla Sóley Halldórsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Klara Káradóttir 1, Guðrún Ólafía Marinósdóttir 1.

Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 18.

Röðin: 1. Þýskaland, 2. Sviss, 3. Ísland, 4. Holland, 5. Frakkland, 6. Ungverjaland, 7. Noregur, 8. Norður Makedónía.
Kátína í íslenska hópnum þegar flautað var til leiksloka og bronsverðlaunin voru í höfn. Ljósmynd/HSÍ

Strákarnir koma heim með gullverðlaun

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -