„Við settum markið hátt fyrir keppnina en að ná gullinu var eitthvað sem við vorum sannarlega ekki vissir um að ná. Okkur grunaði að við værum með sterkan hóp í höndunum áður en lagt var stað og þess vegna hægt að gera sér vonir um góðan árangur. Ég leyni því ekki,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari U17 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir að 17 ára landsliðið vann gullverðlaun á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje í Norður Makedóníu í gær.

Íslenska liðið vann fjóra leiki mjög örugglega, gegn Spáni, Króatíu, Norður Makedóníu og Ungverjalandi áður en kom að úrslitaleiknum gegn Þýskalandi í gær. Sú viðureign vannst 28:25 eftir að íslenska liðið var greinilega öflugra lengst af.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur gullverðlaun í handknattleikskeppni Ólympíuhátíðarinnar.
Hrikalega flottur hópur
„Fyrst fremst er um hrikalega flottan hóp pilta að ræða sem nær vel saman. Ég er viss um að þessi hópur á eftir að ná mjög langt,” segir Ásgeir Örn sem þekkir afar vel til í alþjóðlegum handknattleik enda einn reyndasti landsliðsmaður Íslands, einn silfurdrengjanna frá Peking 2008 auk þess að vera atvinnumaður í Evrópu í rúman áratug.
Það var áskorun fyrir að takast á við þýska liðið og lenda í jafnari leik eftir að hafa unnið aðra leiki á mjög sannfærandi hátt.

Yfirburðirnir komu á óvart
Ásgeir Örn segir yfirburði íslenska liðsins í fjórum leikjum af fimm hafa komið á óvart. „Við reiknuðum sannarlega ekki með því að vinna fyrstu leikina meira og minna með meira en tíu marka mun og vera um leið búnir að gera út um viðureignirnar eftir 40 til 45 mínútur. Það var varla í okkar villtustu draumum,“ sagði Ásgeir Örn en bendir á að þýska landsliðið hafi einnig unnið sína leiki í hinum riðli mótsins afar örugglega.
Eiga allir skilið mikið hrós
„Það lék enginn vafi á að tvö bestu liðin mættust í úrslitaleiknum. Í honum vorum við augljóslega betri. Ég vil hrósa strákunum öllum fyrir að standa sig alveg hrikalega vel. Það var áskorun fyrir þá að takast á við þýska liðið og lenda í jafnari leik eftir að hafa unnið aðrar viðureignir á mjög sannfærandi hátt.
Það er hrikalega góður góður andi í þessum hópi. Þetta er mjög sérstakur hópur. Þeir eiga hrós skilið fyrir að hafa unnið mjög vel í sumar og lagt sig fullkomlega fram á mótinu,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson sem er þjálfari 17 ára landsliðsins ásamt Andra Sigfússyni. Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari A-landsliðsins var þeim og hópnum til halds og trausts við undirbúninginn og þátttökuna.
Markverðir:
Anton Máni Francisco Heldersson, Valur.
Sigurmundur Gísli Unnarsson, ÍBV.
Aðrir leikmenn:
Alex Unnar Hallgrímsson, Fram.
Anton Frans Sigurðsson, ÍBV.
Bjarki Snorrason, Valur.
Freyr Aronsson, Haukar.
Gunnar Róbertsson, Valur.
Kári Steinn Guðmundsson, Valur.
Kristófer Tómas Gíslason, Fram.
Logi Finnsson, Valur.
Matthías Dagur Þorsteinsson, Stjarnan.
Ómar Darri Sigurgeirsson, FH.
Örn Kolur Kjartansson, Valur.
Patrekur Smári Arnarsson, ÍR.
Ragnar Hilmarsson, Selfossi.
Þjálfari: Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Þjálfari: Snorri Steinn Guðjónsson.
Þjálfari/flokksstjóri: Andri Sigfússon.
Sjúkraþjálfari: Ellert Ingi Hafsteinsson.