Ungverska stórliðið One Veszprem HC hefur fyrirvaralaust sagt upp markvarðaþjálfaranum Arpad Sterbik. Tilkynnti félagið uppsögnina í morgun. Kemur hún mörgum í opna skjöldu. Sterbik hefur verið í herbúðum One Veszprém í sjö ár, þar af síðustu fimm árin sem markvarðaþjálfari eftir að keppnisskórnir voru lagðir á hilluna.
Ekki kemur fram í tilkynningu hver taki við af Sterbik og beri þar með hitan og þungan af þjálfun markvarðanna Rodrigo Corrales og Mikael Appelgren. Sá síðarnefndi kom til félagsins í sumar.
Sterbik var einn allra fremstu markvörður heims um árabil. Fyrir tveimur árum fékk Sterbik hjartaáfall og var frá vinnu um nokkurt skeið áður en hann sneri stálsleginn til leiks aftur.
Tölvuverð uppstokkun hefur átt sér stað í leikmannahópi One Veszprém í sumar og ljóst að þjálfarateymi liðsins fer ekki varhluta af breytingum.
One Veszprém er væntanlegt hingað til lands undir lok mánaðarins til að taka þátt í kveðjuleik Arons Pálmarssonar.