Íslenska landsliðið sprakk hreinlega út og sýndi allar sínar bestu hliðar þegar liðið vann rúmenska landsliðið, 32:26, á Evrópumótinu í handknattleik kvenna, 17 ára og yngri í Podgorica í Svartfjallalandi í kvöld. Ísland mætir Austurríki á morgun klukkan 17.30 í viðureign sem sker úr um hvor þjóðin leikur um 17. sæti mótsins á sunnudaginn. Tapliðið leikur um 19. sætið.
Íslenska liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Frábær varnarleikur að viðbættri stórgóðri frammistöðu Danijelu Söru Björnsdóttur markverði lagði grunn að góðu forskoti snemma leiks. Rúmenska liðið komst lítt áleiðis.
Sóknarleikur og hraðaupphlaup gengu vel. Rúmenska liðið lenti þremur til fimm mörkum undir. Því tókst þó að minnka muninn einu sinni í eitt mark, 11:10. Því var svarað með fjórum íslenskum mörkum í röð. Eftir það má segja að íslensku stúlkurnar hafi aldrei litið um öxl.

Staðan í hálfleik var 16:12. Síðari hálfleikur hófst af krafti. Eftir aðeins fimm mínútur var forskotið orðið sjö mörk, 20:13. Mestur var munurinn níu mörk þegar 13 mínútur voru til leiksloka, 27:18.
Rúmenar lögðu allt í sölurnar á síðustu 10 mínútunum en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Vel gert
Frábær leikur hjá stelpunum. Sennilega sá besti í keppninni. Örugglega heilsteyptasta frammistaðan. Vel gert hjá stelpunum að ná sér svona vel á strik eftir vonbrigði undanfarna daga.
Laufey Helga Óskarsdóttir var valin besti leikmaður íslenska liðsins.
Danijela Sara átti stórleik í markinu, varði 19 skot. Annars er rétt að hæla öllum leikmönnum liðsins fyrir frábæra frammistöðu, jafnt í vörn sem sókn.

Mörk Íslands: Ebba Guðríður Ægisdóttir 8, Laufey Helga Óskarsdóttir 7, Eva Steinsen Jónsdóttir 5, Eva Lind Tyrfingsdóttir 4, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 3, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Agnes Lilja Styrmisdóttir 2, Hekla Sóley Halldórsdótti 1.
Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 19, 43,2% – Erla Rut Viktorsdóttir 0.

EM17-’25: Leikjadagskrá í krossspili og um sæti
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.