Georgíski landsliðsmaðurinn Giorgi Tskhovrebadze hefur verið leystur undan samning hjá VFL Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar. Tskhovrebadze kom til félagsins 2023 frá Montpellier. Hann náði sér ekki á strik á síðustu leiktíð. Samningur Tskhovrebadze við Gummersbach átti að óbreyttu að renna sitt skeið á enda að tveimur árum liðnum.
Eftir að Kay Smits og Joao Gomes sömdu við Gummersbach í sumar virtist ljóst að Tskhovrebadze væri orðið ofaukið í hópnum því auk Smits hefur félagið Teit Örn Einarsson samningsbundinn næsta árið.
Tskhovrebadze verður ekki lengi án atvinnu. Hann mun hafa samið við RK Zagreb, meistaraliðið í Króatíu til þriggja síðustu áratuga.
Tskhovrebadze lék 67 leiki í þýsku 1. deildinni með Gummersbach og skoraði 161 mark.




