„Frammistaðan var frábær,“ sagði Díana Guðjónsdóttir annar þjálfari U17 ára landsliðs kvenna eftir sigurinn á Rúmenum, 32:26, á Evrópumótinu í handknattleik kvenna í Podgorica í Svartfjallalandi í kvöld. Díana segir að öll helstu áhersluatriðin hafi náðst, ekki síst í vörninni. Útkoman hafi verið besti leikur íslenska liðsins í mótinu, alltént í því sem sneri að varnarleik.
Höfuðáhersla á varnarleikinn
„Við lögðum mikla áherslu á varnarleikinn í undirbúningnum og mér fannst það ganga upp. Það var mikil barátta í okkur með þeim afleiðingum að okkur tókst að keyra vel á þær allan tímann. Áfram var Danijela í markinu geggjuð,“ sagði Díana og bætti við að liðið hafi aldrei dottið niður eins og það hefur á tíðum gert í leikjum.
Alltaf pressa
„Auðvitað er alltaf pressa á okkur enda viljum við gera vel fyrir landið okkur og standa okkur,“ sagði Díana Guðjónsdóttir sem strax er farin, ásamt Hilmari Guðlaugssyni samstarfsmanni sínum við þjálfun landsliðsins, að leggja drög að viðureigninni við Austurríki síðdegis á morgun.
EM17-’25: Sprungu út og unnu frábæran sigur
Myndskeið: Sigurgleði í Potgorica
EM17-’25: Sprungu út og unnu frábæran sigur
EM17-’25: Þrír leikir eftir – „Við erum að læra“