Íslensku piltarnir í 19 ára landsliðinu unnu sinn þriðja leik á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Kairó í Egyptalandi í dag. Þeir lögðu harðskeytta Brasilíumenn, 25:19, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10.
Ísland fer þar með áfram í milliriðil 16 efstu liða mótsins með tvö stig. Næstu leikir verða á mánudag og þriðjudag gegn Spáni og Serbíu. Síðar í dag skýrist við hvort liðið verður leikið á mánudag. Serbar og Spánverjar eru jafnir að stigum en eigast við í dag.
Brasilíumenn fara áfram í forsetabikarinn, sæti 17 til 32, ásamt Gíneu. Sádi Arabar fylgja Íslandi áfram í millriðil. Sádar fengu þrjú stig í þremur leikjum eins og Brasilía en hafa lakari markatölu.
Ljóst var frá upphafi að brasilísku piltarnir ætluðu að selja sig dýr til að freista þess að vinna stigið sem þá vantaði til að komast í 16-liða úrslit. Þeir börðust af krafti í vörninni en voru að sama skapi ekki eins árangursíkir í sókninni. Þeim tókst þó að halda í við íslenska liðið til loka fyrri hálfleiks, ekki síst vegna stórleiks Guilherme Henrique Ferreia Carneiro markvarðar.
Í síðari hálfleik gekk íslensku piltunum afar vel í vörninni. Þeir slógu vopnin úr höndum Brasilíumanna hvað eftir annað. Svo vel að þeir skoruðu aðeins tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungi hálfleiks. Ísland náði fimm marka forskot, 17:12 og hélt því meira og minna til leiksloka.
HM19-’25: Vorum alltof værukærir að þessu sinni

Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 10/6, Andri Erlingsson 4, Dagur Árni Heimisson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1, Haukur Guðmundsson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 8/1, 31%.
HM19-’25: riðlakeppni, úrslit og staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.