- Auglýsing -
- Handknattleiksdeild ÍBV staðfesti í gær að Grímur Hergeirsson hafi samið við deildina um að þjálfara meistaraflokkslið karla með Erlingi Richardssyni á komandi leiktíð. Nokkuð er síðan handbolti.is sagði frá þessu enda var Grímur með ÍBV-liðinu ásamt Erlingi á Ragnarsmótinu fyrir meira en hálfum mánuði.
- Grímur er þrautreyndur þjálfari. Hann stýrði karlaliði Selfoss leiktíðina 2019/2020 og var aðstoðarþjálfari frá 2015 til 2019. Hann var þessu til viðbótar þjálfari kvennaliðs Selfoss síðari hluta tímabils 2016-17 og hefur komið að yngri flokka þjálfun. Grímur er einnig lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik skoraði fimm mörk þegar Vive Kielce vann Szczecin á útivelli, 34:20, í fyrstu umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Haukur Þrastarson var ekki í leikmannahópi Kielce-liðsins sem var marki yfir í hálfleik, 14:13. Í síðari hálfleik var um einstefnu að ræða.
- ÍR vann færeyska úrvalsdeildarliðið Neistan, 28:25, í æfingaleik í Austurbergi í gær. Neistin er hér á landi í vikulöngum æfingabúðum eins og handbolti.is sagði frá á dögunum. ÍR-ingar töpuðu hinsvegar fyrir Fram, 33:28, í æfingaleik á föstudaginn.
- Ágúst Emil Grétarsson tryggði Gróttu eins marks sigur, 31:30, á Herði frá Ísafirði í æfingaleik liðanna í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gær. Um var að ræða síðasta æfingaleik Gróttumanna áður en keppni hefst formlega þegar kemur fram í vikuna þegar blásið verður til leiks í Coca Cola-bikarnum. Grótta vann Selfoss, 28:24, í æfingaleik á föstudaginn.
- Auglýsing -