Lið íslensku handknattleikskvennanna í þýska handknattleiknum áttu erfitt uppdráttar í fyrstu umferð fyrstu og annarrar deildar í gær. Báðar máttu þær sætta sig við tap, hvor á sinni vígstöðinni. Díana Dögg Magnúsdóttir með nýliðum BSV Sachsen Zwickau í efstu deild og Embla Jónsdóttir í sínum fyrsta leik með Göppingen í 2. deild.
BSV Sachsen Zwickau steinlá á heimavelli í grannaslagnum á móti Halle Neustadt, 36:20. BSV Sachsen Zwickau er að leika í efstu deild í fyrsta sinn í aldarfjórðung eftir að hafa unnið 2. deild í vor. Leikmenn liðsins náðu sér aldrei á strik. Þeir misstu leikinn úr höndum sér strax í upphafi og voru 11 mörkum undir í hálfleik, 19:8. Seinni hálfleikurinn var svipaður og ljóst að þrátt fyrir góða frammistöðu í æfingaleikjum upp á síðkastið þá var talsverður skjálfti í leikmönnum þegar komið var fram í sviðsljósin.
Díana Dögg skoraði tvö mörk í sex skotum og náði sér ekki á strik fremur en aðrir leikmenn BSV Sachsen Zwickau sem sækja lið Buxtehuder SV heim eftir viku.
Embla kom lítið við sögu þegar Göppingen tapaði með 12 marka mun fyrir Waiblingen, 33:21 á heimavelli. Embla kom óvænt inn í aðalliðið í vikunni. Næsti leikur Göppingen verður á útivelli í við MTV Heide á laugardaginn.