- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skipti okkur mjög miklu máli

Hafdís Renötudóttir og Karen Knútsdóttir, Framarar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Þessi leikur skipti okkur mjög miklu máli eins og þú sást. Við mættum mjög vel stemmdar og fögnuðum þessum sigri mjög vel enda berum við virðingu fyrir öllum titlum sem eru í boði. Okkur langar alltaf að vinna,“ sagði Karen Knútsdóttir leikmaður Fram eftir sjö marka sigur liðsins, 28:21, á Íslandsmeisturum KA/Þórs í meistarakeppni HSÍ í kvennaflokki í KA-heimilinu í dag.


„Við hugsum fyrst og fremst um okkur sjálfar. Síðasta tímabil var erfitt fyrir alla og við náðum okkur ekki nægilega vel á strik. Síðan því lauk höfum við lagt að baki mikla vinnu. Það má segja að við höfum beðið með óþreyju eftir þessu keppnistímabili. Við vorum vel stemmdar og hugsum ekkert um önnur lið í deildinni,“ sagði Karen.

Sjálfstraustið jókst

Karen tók undir með blaðamanni að upphafskaflinn í síðari hálfleik hafi orðið til þess að leiðir liðanna skildu. Hafdís Renötudóttir varði þá nokkur skot og tókst þar með að slá leikmenn KA/Þórs út af laginu. „Munurinn lá í Hafdísi í byrjun síðari. Um leið og hún varði nokkur skot þá tókst okkur að fá hraðaupphlaup og seinni bylgju mörk. Um leið kom meira sjálfstraust í varnarleikinn. Þegar á heildina er litið þá var þetta liðsheildarsigur hjá okkur,“ sagði Karen.

Leiðist ekki að vera í baráttunni


Karen sagði að sænska konan Emma Olsson kæmi vel inn í lið Fram en henni er ætlað að fylla að einhverju leyti í skarðið sem Steinunn Björnsdóttir skilur eftir sig. Steinunn sleit krossband í mars, fór í aðgerð í apríl og verður ekki með Fram fyrr en kemur eitthvað fram á næsta ár.

„Emma er sterk og það er mikill kraftur í henni. Emmu leiðist ekki að vera í baráttunni á línunni eins og áhorfendur fengu að sjá í dag. Emma og Stella Sigurðardóttir, sem er byrjuð að leika aftur, mynda mjög sterkt þristapar í vörninni. Fleiri breytingar eru hjá okkur og segja má að við séum með nýtt lið. Því fylgja miklar breytingar að missa út Steinunni sem hefur verið besti leikmaður deildarinnar undanfarin ár. Kristrún Steinþórsdóttir er síðan meidd og svo eigum við Pertlu [Ruth Albertsdóttur] til góða. Eins og staðan er í dag er útlitið gott,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við handbolta.is í KA-heimilinu í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -