- Auglýsing -

Var mikilvægt að vinna leikinn og enda á jákvæðum nótum

- Auglýsing -


„Við erum vitanlega mjög ánægðir með þennan sigur. Okkur fannst mjög mikilvægt að vinna þennan leik og fá að spila um fimmta sætið, enda mótið á góðum nótum,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari 19 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að íslenska landsliðið lagði Ungverja, 37:36, í krossspili um sæti fimm til átta á heimsmeistaramótinu í Kaíró í Egyptalandi.


Með sigrinum er ljóst að íslenska landsliðið leikur við heimaliðið, Egypta, á sunnudaginn kl. 11.45 um 5. sætið á heimsmeistaramótinu. Heimir sagðist vera ánægður með framlag leikmanna í leiknum en margir sem léku minna í gær gegn Dönum fengu meiri tíma í dag.

Íslenska liðið lék fimm einn vörn í fyrri hálfleik í dag en breytti í byrjun síðari hálfleiks. Heimir sagðist ekki hafa viljað gera breytingar á varnarleiknum fyrr en í upphafi síðari hálfleiks þótt fimm einn vörnin hafi gengið misjafnlega í fyrri hálfleik.

Breyttum í hálfleik

„Eftir breytingu í síðari hálfleik þá tókst okkur að loka betur á Ungverjana með þeim afleiðingum að okkur tókst að ná nokkurra marka forskoti sem lagði grunn að sigrinum. Ungverjarnir fóru síðan í sjö á sex undir lokin og minnkuðu muninn í eitt mark þegar 10 sekúndur voru eftir. Við vorum alveg með þá. Mér fannst þetta vera sanngjarn sigur,“ sagði Heimir sem var kátur með að leggja Ungverjana eftir tap fyrir þeim í bronsleiknum á EM 18 ára fyrir ári síðan.

Verður ævintýri

Framundan er viðureign við Egypta á sunnudaginn sem hugsanlega verður leikin að viðstöddum 20 þúsund áhorfendum, nokkuð sem verður ný reynsla fyrir leikmenn íslenska landsliðsins. „Það verður ævintýri að komast í kynni við þá stemningu. Við mætum bara svellkaldir í leikinn,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U19 ára landsliðs karla, hvergi banginn að vanda.

HM19-’25: Sætur sigur á Ungverjum – mæta Egyptum á sunnudaginn

HM19-’25: Leikjadagskrá – leikir um sæti

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -