Franska handknattleiksliðið Nancy, sem Elvar Ásgeirsson lék með í hálft annað ár frá 2021 til 2023, er að öllum líkindum á leið í gjaldþrot. Félaginu hefur á ný verið synjað um keppnisleyfi í næst efstu deild franska handknattleiksins í karlaflokki. Ástæðan er sú að félagið hefur ekki getað lagt fram nægar tryggir til að geta haldið eðlilegum rekstri úti næsta keppnistímabil. Mjög strangt eftirlit er með fjármálum franska handknattleiksliða.
Eftir því Handnews greinir frá þá eiga leikmenn og stafsmenn félagsins inni laun síðan í júní. Sennilegt er að forráðamenn Nancy óski eftir gjaldþrotaskiptum á næstu dögum.
Félagið áfrýjaði í sumar synjun leyfisnefndar franska handknattleiksins á keppnisleyfi í næst efstu deild. Eftir að hafa freistað þess að skrapa saman viðbótarfjármagni til rekstursins sótti félagið um ný um keppnisleyfi. Því var einnig hafnað og ljóst að Nancy leikur ekki í atvinnumannadeildum franska handknattleiksins á komandi leiktíð, ef félagið á annað borð stendur af sér næstu daga vegna þeirra skulda sem þegar eru fyrir hendi, m.a. til leikmanna og starfsmanna.
Var í efstu deild fyrir 2 árum
Nancy var í efstu deild franska handknattleiksins leiktíðina 2022/2023 en féll eftir það í næst efstu deild. Á síðasta keppnistímabili hafnaði Nancy í 9. sæti 2. deildar og féll úr leik eftir vítakeppni í átta liða úrslitum umspils um sæti í efstu deild.