Haukar höfðu betur í fyrsta Hafnarfjarðarslagnum á nýju keppnistímabili í kvöld þegar þeir mættu FH í fyrsta leik Hafnarfjarðarmótsins í handknattleik karla í Kaplakrika, 29:26. Eins oft áður þegar liðin leiða saman hesta sína var munurinn lítill. Haukar voru marki yfir þegar fyrri hálfleik lauk, 13:12.
Frumkvæðið var lengst af í höndum leikmanna Hauka. FH komst einu sinni yfir í síðari hálfleik, 19:18, með marki Einars Arnar Sindrasonar 16 mínútum fyrir leikslok.

Bæði lið voru nokkuð að þreifa sig áfram eins og eðlilegt er í upphafi leiktíðar. Einnig vantaði nokkra leikmenn í bæði lið. M.a. voru Garðar Ingi Sindrason og Leonharð Þorgeir Harðarson ekki með FH. Sá síðarnefndi mun vera meiddur en Garðar er nýkominn heim eftir langa törn með U19 ára landsliðinu á HM í Egyptalandi. Þá er ljóst að tíma mun taka hjá FH-ingum að fylla skarðið sem Ásbjörn Friðriksson skildi eftir þegar hann lagði skóna á hilluna í sumar.

Vilius Rasimas markvörður og hornamaðurinn Brynjólfur Snær Brynjólfsson voru á meðal leikmanna sem ekki voru í liði Hauka að þessu sinni. Þá eru Aron Rafn Eðvarðsson, Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason hættir.
Ofan á annað hafa bæði lið á að skipa nokkrum nýjum leikmönnum sem eiga eftir að venjast nýjum samherjum.

Næsti leikur Hafnarfjarðarmótsins fer fram á föstudaginn þegar Haukar og Þór eigast við í Kaplakrika frá og með klukkan 19.
Mörk FH: Jón Bjarni Ólafsson 8, Bjarki Jóhannsson 4, Einar Örn Sindrason 4, Símon Michael Guðjónsson 4, Birkir Benediktsson 2, Ómar Darri Sigurgeirsson 2, Brynjar Narfi Arndal 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 7, Daníel Freyr Andrésson 5.
Mörk Hauka: Sigurður Snær Sigurjónsson 6, Adam Haukur Baumruk 4, Hergeir Grímsson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Andri Fannar Elísson 2, Jón Ómar Gíslason 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Össur Haraldsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Egill Jónsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 9, Ari Dignus Maríuson 1.
