Engin lausn virðist í sjónmáli í máli dönsku handknattleikskonunnar Christina Pedersen. Hún hefur verið í æfingabanni hjá danska úrvalsdeildarliðinu Viborg í mánuð. Samherjar hennar settu félaginu stólinn fyrir dyrnar þegar æfingar hófust á ný eftir sumarleyfi. Þær neituðu allar sem ein að æfa með Pedersen.
Í hverju liggur ágreiningurinn?
Ekki hefur verið gert opinbert af hverju leikmenn neita að æfa með Pedersen en ljóst má vera að talsvert hafi komið upp í samskiptum leikmanna og hennar. Maria Fisker fyrirliði Viborg vill ekki tjá sig um málið og forráðamenn Viborg hafa haldið spilunum þétt að sér.
Er ekki á liðsmynd
Á dögunum tók Viborg þátt í æfingamóti í Svíþjóð. Þar var Pedersen fjarri góðu gamni. Eins hefur Viborg birt mynd af leikmannahópi komandi tímabils. Pedersen er ekki á myndinni.
Stjórnendur Viborg virðast mát vegna stöðunnar. Pedersen var í upphafi send í tveggja vikna æfingabann. Bannið hefur tvívegis verið framlengt, um viku í hvort skiptið. Viðbúið er að bannið verði endurnýjað um helgina, ef að líkum lætur.
Með nýjan samning
Pedersen varð markahæsti leikmaður Viborg í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hún og félagið komust að samkomulagi um nýjan tveggja ára samning í vor. Framkvæmdastjóri félagsins sagði á dögunum að hann hafi ekki haft hugmynd um þá ólgu sem ríkti innan leikmannahópsins í garð Pedersen þegar samningurinn var undirritaður. Félagið hefði þá hagað málum á annan veg.