Haukar unnu stórsigur á Þór, 35:20, á Hafnarfjarðarmóti karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Um var að ræða annan sigur Hauka á mótinu og því hafa þeir unnið mótið að þessu sinni þótt enn sé einni viðureign ólokið, á milli FH og Þórs sem mætst í Kaplakrika klukkan 12 á morgun.
Haukar báru ægishjálm yfir leikmenn Þórs í viðureignni frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn níu mörk, 18:9. Áfram hélt að síga á verri veginn hjá Þórsurum í síðari hálfleik.
Ljóst að Haukar eru til alls líklegir í upphafi Olísdeildar eftir hálfan mánuð undir stjórn hins þrautreynda þjálfara, Gunnars Magnússonar, sem tók við þjálfun Hauka á ný í sumar að lokinni fimm ára veru hjá Aftureldingu.
Að sama skapi virðist mikil vinna vera fyrir höndum áfram hjá Þórsurum undir stjórn Norðmannsins Daniel Birkelund.
Mörk Hauka: Freyr Aronsson 6, Össur Haraldsson 6, Birkir Snær Steinsson 5, Adam Haukur Baumruk 3, Jón Ómar Gíslason 3, Daníel Máni Sigurgeirsson 2, Egill Jónsson 2, Hergeir Grímsson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 9, Ari Dignus Maríuson 3.
Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 5, Oddur Gretarsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnviður Bragi Pálmason 1, Brynjar Hólm Grétarsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þórður Tandri Ágústsson 1.
Varin skot: engar uppgefnar tölur.
- Handbolti.is ber ekki ábyrgð á að mörk Þórs séu rétt skráð. Skýrsla HBritara er kyndug. M.a. er línumaðurinn Þórður Tandri Ágústsson skráður markvörður. Engin tíðindi hafa borist af því að Þórður Tandri hafi fært sig af línunni í markið.