FH lauk keppni á Hafnarfjarðarmótinu í handknattleik karla með sigri á Þór, 27:24, í Kaplakrika í hádeginu í dag. Staðan var jöfn, 15:15, í hálfleik. FH-ingar unnu annan af tveimur leikjum sínum í mótinu voru í öðru sæti á eftir Haukum sem unnu mótið. Þór tapaði báðum viðureignum.
FH hafði í dag á að skipa mjög breyttu liði frá síðasta tímabili. Margir ungir leikmenn fengu að tækifæri til þess að spreyta sig. Þeir voru í nokkrum erfiðleikum með Þórsara og voru undir lengi vel.
Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik var Þór marki yfir, 19:18. Þá sneru FH-ingar við blaðinu. Munaði ekki síst að hamur rann á Jón Þórarinn Þorsteinsson nýjan markvörð FH. Hann varði hvert skotið á fætur öðru. Leikmenn FH sigu framúr og unnu öruggan sigur á nýliðum Olísdeildar.
Mörk FH: Jón Bjarni Ólafsson 7, Símon Michael Guðjónsson 5, Garðar Ingi Sindrason 4, Þórir Ingi Þorsteinsson 4, Bjarki Jóhannsson 2, Einar Örn Sindrason 2, Ómar Darri Sigurgeirsson 2, Birkir Benediktsson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 12, Daníel Freyr Andrésson 2.
Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 8, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Arnviður Bragi Pálmason 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Þórður Tandri Ágústsson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 7, Patrekur Guðni Þorbergsson 1.