Aganefnd HSÍ sá ekki ástæðu til á fundi sínum í dag að refsa Einari Jónssyni þjálfara Íslands- og bikarmeistara Fram fyrir ummæli þau sem hann lét falla í viðtali við handbolta.is eftir viðureign Fram og Stjörnunnar í meistarakeppni HSÍ í síðustu viku. Stjórn HSÍ vísaði ummælum Einars til aganefndar þar sem líkindi þóttu til þess að ummælin gætu skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar.
Leikhús fáránleikans og trúðasýning í bónus
Staðfestir að hafa verið sendur fyrir aganefnd – má ekkert segja lengur
Greinarmunur er á
Aganefnd segir í úrskurði sínum í dag að gera verði greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra dómara, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli feli fyrst og fremst í sér gagnrýni þjálfarans sem byggja á upplifun hans og hann getur að einhverju marki fært rök fyrir. Innan tjáningarfrelsis þjálfarans rúmast, að mati nefndarinnar, réttur hans til að segja, innan skynsamlegra marka, skoðun sína á frammistöðu dómara, leikmanna og skipulagi HSÍ.
Ekki ósæmileg framkoma
„Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli ekki í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar eða óíþróttamannslega háttsemi sem nær því alvarleikastigi að réttlæt geta að láta þjálfarinn sæta viðurlögum,“ segir orðrétt í úrskurði aganefnda HSÍ sem nánar má lesa um í fréttinni hér fyrir neðan.