Bojana Popovic fyrrverandi landsliðskona og landsliðsþjálfari Svartfjallalands í handknattleik kvenna hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari danska kvennalandsliðsins. Hún verður þar með samstarfskona Helle Thomsen sem tók við starfi landsliðsþjálfara um mitt þetta ár. Ráðning Popovic kemur mjög á óvart enda afar óalgengt að þjálfarar eða aðstoðarþjálfarar dönsku handknattleikslandsliðanna séu ekki danskir.
Fyrsti leikurinn gegn Íslandi
Fyrsti landsleikur Dana með Thomsen og Popovic við stjórnvölin verður gegn íslenska landsliðinu í Arena Nord í Frederikshavn, fæðingabæ Thomsen, laugardaginn 20. september.
Thomsen valdi í gær 31 konu til æfinga síðustu vikuna fyrir leikinn við Ísland. Leikmenn verða ekki allir við æfingar. Thomsen vill með þessum stóra hóp kynnast mörgum leikmönnum en hún hefur ekki þjálfað félagslið í Danmörku um árabil.
Lék í átta ár í Danmörku
Popovic var um árabil ein allra besta handknattleikskona heims. Hún lék með dönsku félagsliðum frá 2002 til 2010 en lagði skóna á hilluna 2012 eftir tveggja ára veru hjá ŽRK Budućnost í Svartfjallalandi, liðinu sem hún þjálfar í dag og hefur gert frá 2020. Popovic var landsliðsþjálfari Svartfjallands frá 2021 til 2024.
Samningur Popovic við danska handknattleikssambandið gildir út næsta ár.