Nýr samningur á milli Jaron Siewert og Füchse Berlin lá á borðinu þegar Siewert var fyrirvaralaust rekinn úr starfi þjálfara þýska meistaraliðsins í gær. Þetta segir Bob Hanning framkvæmdastjóri og hæstráðandi hjá félaginu. Hann segir að nauðsynlegt hafi verið að grípa til tafarlausra aðgerða vegna óróa sem var innan félagsins eftir yfirlýsingu Stefan Kretzschmar fráfarandi íþróttastjóra félagsins í byrjun vikunnar. Kretzschmar tilkynnti að hann ætlaði að hætta hjá félaginu í vor þegar samningur hans rynni út.
Kretzschmar hvarf frá félaginu í gær um leið og Siewert þjálfari varð að taka saman föggur sína. Hanning staðfestir að nýr samningur við þjálfarann hafi legið á borðinu. Aðeins hafi verið eftir að ganga frá smáatriðum áður en hægt væri að skrifa undir.
Siewert hafði þjálfað Füchse Berlin í fimm ár og stýrði liðinu til síns fyrsta Þýskalandsmeistaratitils í vor. Samningur hans við félagið átti að renna út í lok júní á næsta ári.
Fórnarlamb breytinga
Hanning hefur víða verið gagnrýndur fyrir vinnubrögð sín að segja upp fyrirvaralaust upp farsælum þjálfara. Hanning segir Siewert vera fórnarlamb breytinga sem ákveðið hafi verið að ráðast í við brottför Kretzschmar. Breytingarnar fela í sér að starf þjálfara og íþróttastjóra verður sameinað undir einn hatt sem Daninn Nicolaj Krickau mun bera.
Fyrsti leikur Fücshe Berlin eftir breytingarnar verður á morgun í Max Schmeling-Halle í Berlín gegn Evrópumeisturum SC Magdebrg.