- Auglýsing -
- Þýska handknattleiksliðið Melsungen var að semja við franskan miðjumann Sadou Ntanzi sem kemur strax til liðsins sem er í miklum meiðslavandræðum. Ekki færri en sjö leikmenn Melsungen eru annað hvort meiddir eða veikir. Ekki síst mun vera skortur á leikstjórnendum.
- Ntanzi er 25 ára gamall Frakki sem var á samningi hjá Al Arabi í Doha í Katar en á síðustu leiktíð var hann hjá Tatabánya í Ungverjalandi eftir að samningstímanum lauk hjá PSG sumarið 2024.
- Svo mikill skortur er hjá Melsungen á leikmönnum vegna ástandsins að Isaias Guardiola aðstoðarþjálfari tók fram keppnisskóna og lék með liðinu gegn Eiseanch í þýsku 1. deildinni um síðustu helgi. Guardiola stendur á fertugu og hafði fyrir nokkru lagt skóna á hilluna góðu.
- Franski landsliðsmaðurinn Aymeric Minne færir sig um set næsta sumar og gengur til liðs við Flensburg-Handewitt í Þýskalandi. Hann leikur nú með HBC Nantes í heimalandi sínu. Samningur Minne við Flensburg er til fjögurra ára, til ársins 2030.
- Danski línumaðurinn Steven Plucnar Jacobsen heldur heim til Danmerkur næsta sumar og gengur til liðs við uppeldisfélag sitt, GOG. Jacobsen leikur nú með Rhein-Neckar Löwen.