Handknattleiksmaðurinn Ólafur Brim Stefánsson lék með Stjörnunni í gærkvöld gegn ÍBV en hann fékk félagaskipti frá Herði á Ísafirði fyrr um daginn eftir því fram kemur í félagaskiptasíðu á vef HSÍ. Ólafur Brim á ekki síst að styrkja varnarleik Stjörnunnar sem varð fyrir miklu áfalli þegar fyrirliðinn Tandri Már Konráðsson sleit hásin fyrir hálfum mánuði.
Hefur víða komið við
Ólafur Brim lék með Harðarliðinu nær alla síðustu leiktíð en ákvað að róa á önnur mið í sumar. Hann hefur víða farið undanfarin ár. Eftir að Ólafur yfirgaf Val sumarið 2020 samdi hann við Gróttu. Ólafur gekk til liðs við Fram sumarið 2022. Hjá Fram var Ólafur í eitt ár uns hann fór aftur til til við Gróttu. Ólafur staldraði stutt við hjá Gróttu haustið 2023 áður en hann samdi við Al Yarmouk í Kúveit. Í millitíðinni, eftir brotthvarf frá Gróttu haustið 2023 áður en haldið var til Kúveit náði Ólafur leikjum með Herði.
Ólafur fór frá Al Yarmouk í Kúveit sumarið 2024 og samdi við MSK Povazska Bystrica í Slóvakíu. Af einhverjum ástæðum fékk hann aldrei leikheimild með MSK Povazska Bystrica og flutti heim í fyrir tæpu ári. Fljótlega gekk hann til liðs við Hörð í Grill 66-deildinni og var vestra fram á vor.