Valur hefur ekki tapað mörgum leikjum á Íslandsmóti kvenna í handknattleik undanfarin ár en það átti sér stað þegar liðið lá fyrir Haukum, 24:21, í annarri umferð Olísdeildar kvenna í N1-höllinni á Hlíðarenda. Haukar voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Forskotið var fimm mörk þegar fyrri hálfleikur var að baki, 14:9.
Allt annað upplit var á báðum liðum en fyrir hálfum mánuði þegar þau leiddi saman kappa sína í meistarakeppni HSÍ á sama stað. Þá réðu leikmenn Vals lögum og lofum meðan Haukar voru fjarri sínu besta.
Leikmenn Hauka voru mun ákveðnari að þessu sinni, léku fína vörn og markvarsla Söru Sifjar Helgadóttur með ágætum en hún náði sér lítt að strik í áðurnefndum leik.
Valsliðið átti undir högg að sækja frá byrjun til enda. Haukar réðu lögum og lofum. Í sóknarleiknum stóð Jóhanna Margrét Sigurðardóttir uppi með 12 mörk auk þess að vera með fimm sköpuð færi.
Haukar voru sjö mörkum yfir, 21:14, þegar síðari hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður.
Valsliðið er vissulega talsvert breytt frá síðasta tímabili og var sannarlega ólíkt sjálfu sér að þessu sinni og óvant því að vera ekki með frumkvæðið á eign heimavelli.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/1, Mariam Eradze 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 11, 31,4%.
Mörk Hauka: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 12/4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 5, Alexandra Líf Arnarsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Embla Steindórsdóttir 1, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 15/1, 41,7%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.