Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna kallaði Alexöndru Líf Arnarsdóttur og Sonju Lind Sigsteinsdóttur leikmenn Hauka í landsliðið í gær. Arnar staðfesti þetta við handbolta.is í morgun. Landsliðið kom sama til æfinga í gær og verður við fram á fimmtudagskvöld. Morguninn eftir verður síðan farið til Danmerkur til vináttuleiks við danska landsliðið.
Tvær meiddar
Valsararnir Elísa Elíasdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir eru meiddar. Þórey Anna fékk högg á þumalfingur í viðureign Vals og Hauka í Olísdeildinni á laugardaginn. Af þeim ástæðum verður hún ekki með landsliðinu við æfingar í vikunni né tekur hún þátt í leiknum við Dani ytra á laugardaginn.
Elísa hefur átt í meiðslum síðustu daga og vikur en er á réttri leið, að sögn Arnars. Til þess að draga úr álagi á Elísu var Alexandra Líf kölluð til en hún var með landsliðinu síðast í vor og var einnig við æfingar í sumar sem Arnar stóð fyrir.
Flogið út á föstudag
Íslenska landsliðið fer til Noregs á föstudagsmorgun og flýgur þaðan áfram til Álaborgar. Frá Álaborg er ekki lengi farið til Frederikshavn.
Vináttuleikurinn við Dani fer fram á laugardaginn í Arena Nord í Frederikshavn og hefst klukkan 14. Óvíst er hvort leikurinn verður sendur út í sjónvarpi hér á landi.
Arnar velur tvo nýliða fyrir leikina við Dani – Birna Berg snýr aftur í landsliðið