-Auglýsing-

Hafði sætt mig við að þessum kafla væri lokið þegar Arnar hringdi

- Auglýsing -

„Þetta var nú kafli á handboltaferlinum sem ég var búin að sætta mig við að væri lokið allt þangað til Arnar hafði sambandið við mig,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir handknattleikskona með ÍBV þegar handbolti.is hitti hana að máli áður en kvennalandsliðið í handknattleik fór til Danmerkur til vináttulandsleiks í Frederikshavn.

Birna Berg var valin í landsliðið á dögunum og verður með í viðureigninni við Dani kl. 14 á morgun. Birna Berg lék síðast með landsliðinu gegn Slóvenum á Ásvöllum 21. apríl 2021.

Eftir allt sem á undan er gengið

„Það var ánægjulegt að fá símtalið enda alltaf gaman að taka þátt í verkefnum með landsliðinu, hitta stelpurnar, fyrir utan heiðurinn að klæðast landsliðspeysunni. Eftir allt það sem á undan er gengið hjá mér, þ.e. mína meiðslasögu er það líka gott að fá þetta tækifæri. Þetta undirstrikar að þrauseigja og það að gefast aldrei upp skilar árangri,“ segir Birna Berg og bætir við að hún hafi á undanförnum árum ekkert leitt hugann að landsliðinu. M.a. sleit hún krossband í hné í þriðja sinn á ferlinum haustið 2021.

Bara bónus

„Ég hef ekkert stefnt á landsliðið aftur. Þess vegna er þetta bara bónus fyrir mig að vera valin.“

Nýtt að vera aldursforseti

Birna Berg segist ekkert hafa hugsað sig um þegar símtalið kom og óskað var eftir kröftum hennar í landsliðið. „Það er alltaf jafn gaman að mæta á æfingar með landsliðinu og hitta stelpurnar. Ofan á allt þá er ég aldursforseti landsliðsins að þessu sinni, það er eitthvað nýtt,“ segir Birna Berg brosandi en hún er 32 ára gömul. Aldurinn undirstrikar hversu ungt kvennalandsliðið er um þessar mundir.

Birna Berg Haraldsdóttir og Britney Cots leikmenn ÍBV í kappleik á Akureyri um síðustu helgi. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Ég er bara spennt fyrir að taka þátt í þessu með stelpunum og sjá hvar við stöndum um þessar mundir eftir miklar breytingar.“

Spurð hvort hún sé farin að horfa lengra fram í tímann en aðeins tveir mánuðir eru þangað til íslenska landsliðið hefur keppni á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Hollandi, segir Birna Berg.

Hugsar ekkert um HM

„Nei, í rauninni ekki. Ég einbeiti mér eingöngu að því að halda mér heilli og geta spilað leiki. HM er ekkert sem ég hef væntingar til. Það væri gaman að fara á HM en ég skil það vel ef Arnar tekur ekki eina svo eldgamla með,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir landsliðskona og leikmaður ÍBV en hún lék með íslenska landsliðinu á HM 2011 í Brasilíu.


Leikmannahópurinn sem tekur þátt í leiknum við Dani í Arena Nord í Frederikshavn á morgun, laugardag.

Markverðir:
Hafdís Renötudóttir, Val.
Sara Sif Helgadóttir, Haukum.

Aðrir leikmenn:
Alexandra Líf Arnarsdóttir, Haukum.
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Fram.
Andrea Jacobsen, HSK Blomberg-Lippe.
Birna Berg Haraldsdóttir, ÍBV.
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda.
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe.
Elín Klara Þorkelsdóttir, IK Sävehof.
Elín Rósa Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe.
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Fram.
Katrín Tinna Jensdóttir, ÍR.
Matthildur Lilja Jónsdóttir, ÍR.
Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum.
Sandra Erlingsdóttir, ÍBV.
Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Haukum.

(Vegna meiðsla fóru Elísa Elíasdóttir, Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir ekki með til Danmerkur. Þær voru í hópnum sem valinn var 9. september).

-Vegna þess að hvergi er að finna á nýjum vef HSÍ upplýsingar um fjölda landsleikja allra leikmanna er þeim sleppt í upptalningu á leikmannahópnum. Raunar hafa upplýsingarnar ekki opinberlega legið fyrir á vef HSÍ um langt árabil.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -