Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði með 16 marka mun, 39:23, fyrir danska landsliðinu í vináttuleik í Arena Nord í Frederikshavn á Jótlandi í dag. Danska liðið var 11 mörkum yfir í hálfleik, 23:12, og réði lögum og lofum frá upphafi til enda gegn mikið endurnýjuðu íslensku landsliði.
Danir gáfu tóninn strax í upphafi í uppseldri Arena Nord með um fjögur þúsund áhorfendum og skoruðu fyrstu fjögur mörkin í viðureigninni.
Fyrsti leikur Thomsen
Þetta var fyrsta viðureign danska landsliðsins eftir að Helle Thomsen tók við þjálfun danska landsliðsins af Jesper Jensen. Þar af leiðandi var leikið í Frederikshavn sem er hennar heimabær frá æsku.
Danska landsliðið er eitt það besta í heiminum og vann til silfurverðlauna á EM á síðasta ári.
Eftir tíu mínútur sýndi markataflan 9:4 og enginn vafi lék á því að danska liðið hafði náð tökum á leiknum frá upphafi.
Um miðjan fyrri hálfleik fóru þó að sjást veikleikar á dönsku vörninni og íslenska liðið skoraði fjögur mörk á skömmum tíma. Þegar staðan var 14:8 eftir 17 mínútna leik tók Thomsen leikhlé.
Eftir um 10 mínútur í síðari hálfleik var forskot danska liðsins komið í 12 mörk, 29:17, og ljóst að allt stefndi áfram í stóran danskan sigur sem varð og raunin.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Díana Dögg Magnúsdóttir 5, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Sandra Erlingsdóttir 2/1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Dana Björg Guðmundsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 7, Sara Sif Helgadóttir 3.
Fengum margt úr þessum leik til þess að vinna með