-Auglýsing-

Fengum margt úr þessum leik til þess að vinna með

- Auglýsing -

„Við fengum aðeins að þjást í dag og það var erfitt gegn mjög sterku liði Dana, einu því besta í heimi. En við fengum margt úr þessum leik til þess að vinna með fyrir næstu verkefni. Margt var vel gert. En ef við hefðum farið betur með færin, ekki síst í fyrri hálfleik. Þá hefðum við farið betur frá þessu,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í viðtali við handbolta.is eftir, 39:23, tap íslenska landsliðsins fyrir danska landsliðinu í vináttulandsleik í Frederikshavn í dag.

Þetta var fyrsta viðureign danska landsliðsins eftir að Helle Thomsen tók við þjálfun danska landsliðsins um mitt árið. Þar af leiðandi var leikið í Frederikshavn sem er hennar heimabær frá æsku. Uppselt var á leikinn, um fjögur þúsund áhorfendur, leikurinn settur upp fyrir Thomsen á hveitibrauðsdögum hennar í starfi.

Mikið breyttur hópur

„Sérstaklega í fyrri hálfleik vorum við lengst af að spila okkur í góð færi, ein sex til sjö færi hefðum við átt að nýta betur sem hefði breytt stöðunni í hálfleik,“ sagði Arnar sem er með mikið breyttan leikmannahóp og upp undir tíu leikmenn sem ekki voru með á EM fyrir 10 mánuðum. Meðalaldurinn er um 24 ár.

„Breytingin er ekki síst mikil á varnarhlutanum hjá okkur sem við höfum einbeitt okkur að vinna í alla þessa viku.

Fimm einn vörnin gekk betur

Það var vitað að það myndi reyna verulega á varnarleikinn okkar gegn einu sterkasta liði heims. Fimm einn vörnin fannst mér ganga lengi vel ágætlega en sex núll vörnina reyndist okkur erfiðari. Okkur tókst oft að koma okkur í þær stöður sem við vildum ná. Við lærum öll af þessu,“ sagði Arnar sem fær næstu leiki eftir mánuð, gegn Færeyingum og Portúgölum í undankeppni EM 2026.

„Það fá allir heilan helling út úr þessum leik sem við förum með inn í framhaldið. Á því leikur enginn vafi. Vinnan heldur áfram,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -