Eftir tvo sigurleiki í upphafi keppnistímabilsins í Meistaradeild Evrópu máttu Orri Freyr Þorkelsson og samherjar í Sporting Lissabon bíta í það súra epli að tapa í heimsókn til Álaborgar í kvöld. Danska meistaraliðið var sterkara frá upphafi til enda leiksins og vann sannfærandi sigur á Portúgalsmeisturunum, 35:30. Aalborg var sex mörkum yfir í hálfleik, 18:12, og hefur þar með einnig tvo vinninga eins og Sporting.
Orri Freyr var markahæstur hjá Sporting í kvöld með sex mörk. Fimm af mörkunum skoraði Hafnfirðingurinn frá sjö metra strikinu. Francisco Costa skoraði einnig sex mörk.
Buster Juul var markahæstur hjá Aalborg með níu mörk. Þar á eftir var Juri Knorr með fimm mörk ásamt Lukas Nilsson.
Tveir meiddust
Thomas Arnoldsen og Mads Hoxer meiddust í fyrri hálfleik og léku ekkert með Aalborg-liðinu í síðari hálfleik.
Ágúst Elí Björgvinsson var ekki í leikmannahópi Aalborg Håndbold. Væntanlega er leigutíma hans hjá félaginu lokið.
Bitu í skjaldarrendur
Bjarki Már Elísson og liðsmenn ungverska meistaraliðsins One Veszprém bitu í skjaldarrendur þegar á leið síðari hálfleik í viðureign við Dinamo Búkarest í rúmensku höfuðborginni. Leikmenn Dinamo voru lengi vel með frumkvæðið en töpuðu niður þræðinum er á leið síðari hálfleik. One Veszprém vann, 30:27, eftir jafna stöðu í hálfleik, 15:15.
Bjarki Már skoraði fjögur mörk, tvö þeirra úr vítaköstum.
Nedim Remili var markahæstur með sjö mörk. Ahamed Adel Mesilhy var næstur með fimm mörk.

Haniel Vincius Inoue var markahæstur leikmanna Dinamo með sjö mörk.
One Veszprém hefur unnið tvo leiki af þremur í riðlakeppni Meistaradeildar. Dinamo er á hinn bóginn án stiga, þar af eru tveir heimaleikir að baki.