Norska liðið Kolstad virtist ekki eiga mikið erindi í franska liðið HBC Nantes í Meistaradeild karla í handknattleik karla í kvöld. Frakkarnir unnu með 15 marka mun á heimavelli, 39:24, og tryggðu sér þar með fyrstu tvö stig sín í keppninni á leiktíðinni. Nantes var átta mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 21:13.
Þrjú mörk á mann
Arnór Snær Óskarsson, Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu þrjú mörk hver fyrir Kolstad sem hefur tapað báðum útileikjum sínum í keppninni til þessa. Liðið vann hinsvegar Dinamo Búkarest á heimavelli fyrir viku. Magnus Søndena var markahæstur með fjögur mörk.
Aymeric Minne var markahæstur hjá Nantes með átta mörk. Nicolas Tounat var næstur með sex mörk. Ignacio Biosca Garcia átti stórleik í markinu, varði 19 skot, 44%. Á sama tíma var gamla brýnið Andreas Palicka slakur í marki Kolstad og kom fáum vörnum við.
Stórleikur Bjerre í Bitola
Í B-riðli vann danska liðið GOG liðsmenn Eurofarm Pelister, 31:28, í Bitola í Norður Makedóníu. GOG hóf leikinn illa en lét ekki hug falla og vann dýrmætan sigur.
Frederick Bjerre átti stórleik og skoraði 13 mörk fyrir GOG. Hjalte Lykke var næstur með sex mörk. Óli Mittún mætti til leiks eftir meiðsli og skoraði fjórum sinnum og gaf eina stoðsendingu.
Dejan Manaskov skoraði níu mörk fyrir Pelister og Filip Luzmanovski skoraði átta sinnum.
Hvort lið hefur einn vinning eftir þrjár umferðir í B-riðli.