Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach tylltu sér í annað sæti þýsku 1. deildarinnar í kvöld með sjö marka sigri á TVB Stuttgart, 33:26, á heimavelli í 6. umferð deildarinnar. Gummersbach hefur unnið sér inn 10 stig í leikjunum sex. Aðeins THW Kiel hefur gert betur, 12 stig í sex viðureignum. Magdeburg er með 9 stig og á leik til góða. Spútniklið Lemgo er einnig með níu stig.
Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach og var einu sinni vikið af leikvelli. Teitur Örn Einarsson var ekki með vegna meiðsla. Þetta er þriðji leikurinn í röð sem hann missir af vegna meiðsla.
Kay Smits var markahæstur hjá Gummersbach með átta mörk. Milos Vujovic var næstur með sex mörk.
Kai Häfner skoraði sjö sinnum fyrir Stuttgart.
Sjötta tapið
Nýliðar Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson og Markus Pütz þjálfa, reka áfram lestina án stiga eftir sex viðureignir. Bergischer HC tapaði í kvöld fyrir Lemgo, 28:25, í PHOENIX CONTACT arena, heimavelli Lemgo.
Tim Suton og Niels Gerardus Versteijnen skoruðu níu mörk hvor fyrir Lemgo. Elias Scholtes lét mest til sín taka við markaskorun hjá Bergischer. Hann skoraði átta sinnum.
Í þriðja leik kvöldsins í þýsku 1. deildinni vann THW Kiel nýliða GWD Minden, 33:25, í hafnarborginni.
Svíinn Eric Johansson skoraði sex mörk fyrir THW Kiel. Andreas Wolff átti stórleik í marki Kiel, varði 15 skot, 45%.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.