Ekki er ráð nema í tíma sé tekið er stundum sagt. Ljóst er að forsvarsfólk handknattleikssambands Portúgals hefur það í huga þessa dagana því sambandið er þegar byrjað að auglýsa viðureign Portúgals og Íslands í undankeppni EM kvenna 2026 sem fram fer í Matosinhos, í útjaðri Porto, sunnudaginn 19. október.
Miðaverði stillt í hóf
Miðaverði er mjög stillt í hóp. Einn miði fyrir fullorðinn kostar þrjár evrur, um 430 kr. Miði fyrir börn (undir 18 ára aldri) er helmingi ódýrari. Einnig eru til sölu fjölskyldupakki fyrir 7 evrur og 50 sent, nærri 1.100 kr. Í fjölskyldupakkanum eru tveir fullorðinsmiðar og tveir barnamiðar.
Miðaverðið ætti ekki að fæla þá frá sem vilja bregða sér í haustferð til Porto upp úr miðjum næsta mánuði og styðja íslenska landsliðið í undankeppni EM.
Áður en íslenska landsliðið fer til Porto mætir það færeyska landsliðinu í fyrstu umferð undankeppninnar á Ásvöllum 15. október kl. 19.30. Á svipuðum tíma leikur portúgalska landsliðið við það svartfellska Podgorica í Svartfjallalandi.