- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Hrikalega stoltur af strákunum“

Núverandi keppnislið Selfoss í Olísdeildinni. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

„Ég er hrikalega stoltur af strákunum fyrir að hafa staðist þessa raun og ná jafntefli í dag vegna þess að mótlætið var mikið og leikmenn Koprivnice mjög grófir í báðum leikjum. Um leið er ég þakklátur fyrir að enginn slasaðist,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss-liðsins, þegar handbolti.is heyrði í honum í kvöld eftir að Selfoss komst áfram í aðra umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Selfoss vann Koprivnice í tveimur leikjum í Tékklandi í dag og í gær, samtals, 59:53. Þar af varð jafntefli í dag, 28:28.

Ragnar Jóhannsson hamrar boltann að marki Koprivnice. Mynd/Poto-Pilka Ivan Pilát


„Við lögðum grunn að þessum sigri með frábærum fyrri hálfleik í gær þar sem vorum með sjö marka forskoti hálfleik og unnum með sex marka mun,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur og bætti við.

Fáum ekki svona leiki heima

„Við fáum ekki svona leiki heima í deildinni. Það er þess vegna mjög sterkt hjá okkur að klára þetta verkefni. Það var mikil pressa á okkur fyrir leikinn í dag eftir sex marka sigur í gær. Karolis Stropus meiddist undir lok leiksins í gær og var ekki með okkur í dag. Hann lék mjög stórt hlutverki í vörninni í fyrri leiknum og var hrikalega góður með Einari [Sverrissyni] í sex núll vörninni. Vegna þess hversu marga okkur vantaði í liðið vegna meiðsla var enn verra fyrir okkur að geta ekki teflt Stropus fram í dag.

Atli Ævar Ingólfsson stóð í ströngu jafnt í vörn sem sókn. Mynd/Poto-Pilka Ivan Pilát


Vegna fjarveru Stropus varð Atli Ævar [Ingólfsson] að leika vörn, nokkuð sem hann er ekki vanur að gera mikið af. Hann skilaði sínu hlutverki frábærlega og var á fullu í 60 mínútur þrátt fyrir að vera að stíga upp úr meiðslum. Elvar Elí [Hallgrímsson] 18 ára strákur og lítt reyndur stóð sig afar vel í hafsentastöðunni í vörninni. Ísak [Gústafsson] var einnig frábær auk þess sem Vilnius [Rasimas] fór hamförum í markinu. Ragnar Jóhannsson var mjög góður í báðum leikjum og eins Hergeir,“ sagði Halldór Jóhann sem missti auk þess Hergeir Grímsson af velli með þrjár brottvísanir þegar 12 mínútur voru til leiksloka.

Erfiðar aðstæður

„Ég er stoltur af liðinu að hafa unnið frábæran sigur í stórgóðum leik í gær og ná svo að halda sjó og gott betur í dag við mjög erfiðar aðstæður gegn liði sem er mjög líkamlega sterkt og leikur allt öðruvísi handbolta en við eigum að venjast.

Hergeir Grímsson stekkur hátt og kastar boltanum að marki Tékkanna. Mynd/Poto-Pilka Ivan Pilát


Við fáum nú tvo leiki til viðbótar í næsta mánuði í keppninni sem verður spennandi og skemmtilegt,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í samtali við handbolta.is. Selfoss mætir RK Jeruzalem Ormos frá Slóveníu í annarri umferð keppninnar eftir miðjan október.


Selfoss-liðið leggur af stað frá Tékklandi í nótt áleiðis til Varsjár í Póllandi. Þaðan fer hópurinn með flugi heim til Íslands á morgun. Eftir að heim kemur tekur við undirbúningur vegna leiks við Fram í Olísdeildinni á fimmtudagskvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -