Síðasta sókn Fram í viðureigninni við ÍBV í Olísdeild kvenna í Lambhagahöllinni á sunnudaginn greip athygli Harðar Magnússonar umsjónmanns Handboltahallarinnar og sérfræðinga hans í þætti gærkvöldsins.
Fram tók leikhlé marki undir, 34:33, þegar 14 sekúndur voru til leiksloka. Sóknin sem hófst eftir leikhléið þótti ómarkviss og skilaði engum árangri. ÍBV fagnaði sigri.
„Mér finnst vera ráðaleysi í þessari síðustu sókn Fram. Ég veit ekki hvort há staða bakvarða ÍBV hafi komið Fram á óvart,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson sérfræðingur Handboltahallarinnar.
„Hvað var verið að teikna upp í leikhléinu. Var það þetta skot gegn einum besta varnarmanni ÍBV allan leikinn?,“ spurði Vignir Stefánsson hinn sérfræðingur kvöldsins hjá Handboltahöllinni.
Hörður Magnússon vakti athygli á að Ásdís Halla Hjarðar leikmaður ÍBV vann vítakast og tvær mínútur í síðustu sókn ÍBV og varði síðan síðasta markskot Fram þegar liðið freistaði þess að jafna metin á síðustu sekúndum.
Sjá má síðustu sókn Fram ásamt skýrri skipun Birnu Berg Haraldsdóttur leikmanns ÍBV til samherja sinna í síðasta leikhléinu í myndskeiði hér fyrir ofan.
Handboltahöllin vikulegur þáttur um handbolta þar sem leikir Olísdeildar kvenna og karla eru krufnir til mergjar. Handboltahöllin er í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans hvert mánudagskvöld.





