Valur sækir í dag heim þýska handknattleiksliðið Blomberg-Lippe í síðari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik kvenna. Leikurinn fer fram í Sporthalle an der Ulmenallee, heimavelli Blomberg-Lippe og hefst klukkan 16. Eftir því sem fram kemur á Facebook-síðu þýska liðsins verður leikurinn ekki sendur út í sjónvarpi eða á netinu.
Átta íslenskar landsliðskonur
Átta leikmenn úr íslenska landsliðshópnum sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu síðar í þessum mánuði taka þátt í leiknum. Landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir er leikmenn Blomberg-Lippe. Tvær þær síðarnefndu eru fyrrverandi leikmenn Vals. Elín Rósa lék með Val á síðustu leiktíð og varð bæði Evrópubikarmeistari og Íslandsmeistari. Leikurinn í dag verður jafnframt fyrsti Evrópuleikur Elínar Rósu fyrir þýska liðið en það sat yfir í fyrstu umferð.

Fimm ár eru síðan Díana Dögg lék síðast með Val.
Elísa Elíasdóttir, Hafdís Renötudóttir, Lovísa Thompson, Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir leika með Val og eru í landsliðshópnum fyrir HM sem tilkynntur var í gærmorgun.





Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Efst í heimalöndum sínum
Valur og Blomberg-Lippe tróna á toppi deilda hvort í sínu landinu. Blomerg-Lippe hefur unnið allar sjö viðureignir sínar til þessa og situr eitt í efsta sæti. Auk þess komst Blomberg-Lippe í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í vikunni.
Á síðustu leiktíð lék Blomberg-Lippe í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og náði alla leið í undanúrslit. Var það í fyrsta sinn um langt árabil sem Blomberg-Lippe átti sæti í Evrópukeppni félagsliða
Tvær úr þýska HM-hópnum
Nieke Kühne og Alexia Hauf, leikmenn Blomberg-Lippe eiga sæti í HM-hóp þýska landsliðsins.
Valur lagði hollenska meistaraliðið JuRo Unirek VZV í tveimur viðureignum, samanlagt 61:56, í fyrstu umferð forkeppninnar.
Síðari leikur Vals og Blomberg-Lippe fer fram á heimavelli Vals á sunnudaginn eftir rúma viku. Samanlagður sigurvegari í leikjunum tveimur kemst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar hvar 16 lið taka þátt og leika í fjórum riðlum á fyrsta stigi keppninnar sem hefst í janúar.





