Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir lék sinn fyrsta leik í dag með ÍBV um mjög langt skeið þegar ÍBV mætti KA/Þór í Olísdeild kvenna í Vestmannaeyjum. Hrafnhildur Hanna mætti til leiks þegar níu mínútur voru til leiksloka og lét strax til sín taka. Hún vann vítakast í fyrstu sókn og átti síðan stoðsendingu og skoraði eitt mark áður en útsending Handboltapassans frá leiknum rofnaði þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka.
Hrafnhildur Hanna hefur verið einstaklega óheppin með meiðsli og verið lengi frá. Um tíma leit jafnvel út fyrir að Hrafnhildur Hanna væri alveg hætt. Hún lék ekkert með ÍBV á síðustu leiktíð eftir að hafa verið nokkuð frá vegna meiðsla leiktíðina 2023/2024.
Hrafnhildur Hanna var um árabil með allra bestu leikmönnum Olísdeildar og hefur nokkrum sinnum verið markadrottning auk þess að vera margföld landsliðskona.
Vart þarf að fjölyrða um hversu mikill styrkur það væri fyrir ÍBV ef Hrafnhildur Hanna getur tekið þátt í leikjum liðsins.
ÍBV vann leikinn við KA/Þór, 37:24.
Sandra átti stórleik í 13 marka sigri í Eyjum



