Elín Klara Þorkelsdóttir landsliðskona í handknattleik skoraði sjö mörk og var markahæst hjá IK Sävehof ásamt Stine Wiksfors þegar Sävehof gerði jafntefli, 31:31, við danska liðið Viborg í fyrri viðureign liðanna í síðari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Liðin mætast öðru sinni á Jótlandi á laugardaginn. Sigurliðið kemst í riðlakeppni Evrópudeildar sem hefst eftir áramót.
Elín Klara og liðsfélagar voru með yfirhöndina nær allan leikinn, m.a. 17:14, í hálfleik og 29:25 þegar átta mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Viborg-liðið fimm mörk í röð og komst yfir, 30:29, og aftur 31:30. Matilda Forsberg jafnaði metin fyrir Sävehof þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka.
Ólafur Örn Haraldsson var eftirlitsmaður EHF á leiknum.




