„Það var nauðsynlegt að rifta samningnum. Eftir samtal við þjálfarann þá var mér það ljóst að alveg sama hvað ég myndi bæta mig sem leikmaður að þá var aldrei möguleiki fyrir mig að vinna mér inn mínútur á vellinum,“ segir Ágúst Elí Björgvinsson markvörður sem losnaði í gær undir samningi sínum við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg eins og handbolti.is sagði frá.
Eftir að Ágúst Elí kom aftur til Ribe-Esbjerg að lokinni lánsdvöl hjá meistaraliðinu Aalborg Håndbold hefur hann ekki fengið tækifæri hjá Ribe-Esbjerg og það þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið upp og ofan. Ágúst Elí stóð sig vel hjá Álaborgarliðinu og hafði m.a. tekið þátt í leikjum liðsins í Meistaradeild Evrópu.
Til þess að eiga einhverja möguleika á að komast út á völlinn aftur segir Ágúst Elí að eina ráðið hafi verið að fá að losna undan samningnum sem átti að gilda fram á mitt næsta ár.
Ágúst vonast til að fljótlega rofi til og hann komist að hjá öðru liði sem vanti dugmikinn markvörð.
„Ég er því án samnings eins og er og mun því leita mér að nýrri áskorun og vonandi verða þau mál leyst fljótlega,“ segir Ágúst Elí enn fremur við handbolta.is.
Kom fyrir þremur árum
Ágúst Elí gekk til liðs við Ribe-Esbjerg sumarið 2022 að lokinni tveggja ára veru hjá KIF Kolding. Hann var markvörður IK Sävehof frá 2018 til 2020 en var þar áður um árabil markvörður uppeldisfélags síns, FH.
Ágúst Elí hefur tekið þátt í 53 landsleikjum. Síðast var hann með landsliðinu gegn Þýskalandi í vináttuleikjum um síðast liðin mánaðamót.




