Valur og Blomberg-Lippe skildi jöfn, 22:22, í síðari viðureign liðanna í annarri og síðari umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Þar sem Valur tapaði fyrri viðureigninni, 37:24, er liðið úr leik. Blomberg-Lippe tekur sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar sem leikin verður í fjórum fjögurra liða riðlum eftir áramótin. Blomberg-Lippe komst í undanúrslit keppninnar á síðustu leiktíð.
Blomberg-Lippe var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10. Oft og tíðum hafði maður á tilfinningunni að liðið gerði ekkert meira en það þurfti til þess að halda sjó í gegnum síðari leikinn í dag eftir stórsigur á heimavelli.
Valur lagði allt í leikinn í dag. Varnarleikurinn var góður og Hafdís Renötudóttir var frábær í markinu. Hún gaf tóninn strax í upphafi og lauk leiknum með nokkrum afar góðum vörslum sem sáu til þess að Valur gerði gott jafntefli við efsta lið þýsku 1. deildarinnar sem farið hefur í gegnum leiktíðina á heimavelli án þess að tapa stigi.
Valsliðið gerði vel í að vinna upp fjögurra marka forskot sem á liðunum var í hálfleik og berjast í lokin fyrir jafnteflinu.
Jafnljóst er að töluverður munur er á liðunum en einnig víst að tapið ytra var of stórt.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4, Ásthildur Þórhallsdóttir 3, Lovísa Thompson 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Mariam Eradze 2.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12/2, 39%.
Mörk Blomberg-Lippe: Ona Vegue I Pena 5, Nieke Kühne 4, Maxi Mühlner 4, Laura Rüffueux 2, Judith Tietjen 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Nuria Bucher 1, Malin Sandberg 1.
Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.





