- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Lentum strax á vegg sem var erfitt að eiga við

- Auglýsing -

„Hópurinn var svekktur eftir leikinn í gær en hefur jafnað sig í dag og er byrjaður að búa sig af krafti undir leikinn við Spánverja á morgun,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann á fundi kvennalandsliðsins og íslenskra fjölmiðla á Radisson Blu hótelinu í Dortmund, degi eftir níu marka tap, 36:27, fyrir Svartfellingum í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Annað kvöld mætir íslenska landsliðið því spænska í annarri umferð milliriðla.

Tókst að rífa úr okkur trúna

Arnar og samstarfsmenn í þjálfarateymi landsliðsins hafa ítrekað horft á leikinn frá í gærkvöldi. Arnar segir að ljóst hafi verið að svartfellska liðið hafi verið öflugt í leiknum í gær. „Við lentum strax á vegg sem var erfitt að eiga við. Varnarleikur Svartfellinga var öflugur. Þeim tókst að rífa úr okkur trúna fljótlega og of auðveldlega.

Einnig vorum við í vandræðum með þær í okkar varnarleik. Leikstjórnandi svartfellska liðsins var okkur erfið. Hún skapaði mjög mikið fyrir samherja sína. Við höfum lagt áherslu á það til þess að vinna vel með hjálparvörnina en vorum í brasi með þann þátt í gær,“ sagði Arnar.

Þurftum toppleik

„Til þess að vinna sterk lið eins og það sem Svartfellingar hafa yfir að ráða verðum við að ná toppframmistöðu. Það gekk ekki eftir í gær. Þar af leiðandi varð þetta erfitt,“ sagði Arnar sem bendir einnig á að svo hafi virst sem spennufall hafi átt sér stað hjá hópnum eftir að hafa náð sæti í milliriðli.

„Við vorum ekki nema á 85% krafti í stað þess að vera á 100%. Af þessu lærum við og munum gera betur á morgun.

Upphafskaflar beggja hálfleika í gær reyndust okkur erfiðir og drógu aðeins úr okkur trúna. Það vantaði í okkur rétta andann og ákefðina sem fylgdi okkur í fyrstu þremur leikjunum. Það er eitthvað sem við getum auðveldlega bætt fyrir tvo síðustu leikina,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í Dortmund í dag.

HM kvenna ”25 – dagskrá, milliriðlar, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -