„Ég er mjög sáttur við stöðuna á okkur um þessar mundir. Þar af leiðandi held ég að við séum klárir í að fara í bikarleiki eftir þrjá sigra í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins, í deildinni og í bikarnum,“ segir Stefán Darri Þórsson, fyrirliði Fram sem mætir Stjörnunni í undanúrslitaleik bikarkeppninnar í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 20.30.
„Það er gaman að fara snemma á tímabilinu af stað með úrslitaleiki eins úrslitahelgin býður upp á. Stjarnan er með hörkulið og í raun skiptir ekki máli hvaða liði maður mætir við þessar aðstæður. Við verðum fyrst og síðast að hugsa um okkur sjálfa hver sem andstæðingurinn er. Við erum á fínum stað um þessar mundir og ljóst að við getum gert það gott,“ sagði Stefán Darri ennfremur.
Stefán Darri segir að nokkrar áherslubreytingar hafi orðið á varnarleik frá síðasta tímabili í kjölfar þjálfaraskipta sem urðu í sumar. Litlar breytingar hafi orðið á leikmannahópnum en þær þó helstar að Andri Már Rúnarsson gekk til liðs við Stuttgart í Þýskalandi og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Kristófer Andri Daðason komu til liðsins. Svo má heldur ekki gleyma því að varnarjaxlinn Ægir Hrafn Jónsson lagði skóna á hilluna.
„Okkur hefur gengið vel að slípa saman hópinn undir stjórn nýs þjálfara. Við mætum vel gíraðir í leikinn,“ sagði Stefán Darri Þórsson sem þrátt fyrir að vera uppalinn hjá Fram í Safamýri þá var hann um nokkurt skeið leikmaður Stjörnunnar upp úr miðjum síðasta áratug.
Þrátt fyrir að Fram hafi aðeins einu sinni unnið bikarkeppnina í karlaflokki hafa lið félagsins í gegnum tíðina sett sterkan svip sinn á keppnina. Fram á nú lið í undanúrslitum í tuttugasta sinn. Þar af hefur Safamýrarliðið leikið til úrslita í ellefu skipti, síðast 2018.