Elverum er áfram í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla, stigi á undan Kolstad, eftir leikina sem fram fóru í gær. Elverum, með Tryggva Þórisson innanborðs, vann Kristiansand TH með 10 marka mun á heimavelli, 43:33. Selfyssingurinn skoraði ekki mark fyrir Elverum. Samherji Tryggva var afar atkvæðamikill og skoraði 16 mörk.
Benedikt Gunnar lét til sín taka
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk í fimm skotum auk þess að gefa fimm stoðsendingar þegar Kolstad lagði Runar á heimavelli, 37:31, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13.
Sigvaldi Björn Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, fékk frí frá leiknum í gær. Sigurjón Guðmundsson, markvörður, var heldur ekki með Kolstad enda er sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Palicka mættur í markið eftir nokkra fjarveru vegna meiðsla. Palicka lét ekki nægja að verja vel í gær heldur skoraði hann tvö mörk.
Dagur og Döhler
Dagur Gautason skoraði þrjú mörk ØIF Arendal í fimm marka tapi liðsins í heimasókn til nýliða Sandefjord, 30:25. Arendal er í 11. sæti með átta stig. Liðið er skipað mjög ungum leikmönnum um þessar mundir og hefur átt erfitt uppdráttar á keppnistímabilinu.
Phil Döhler fyrrverandi markvörður FH varði sex skot, þar af eitt vítakast þann skamma tíma sem hann stóð í marki Sandefjord. Eftir erfiða byrjun í deildinni í haust hafa nýliðar Sandefjord rétt úr kútnum og sitja nú í 7. sæti með 12 stig.
Af gefnu tilefni
Að gefnu tilefni vill handbolti.is taka fram að upplýsingar sem birtar voru í molakaffi í gærmorgun, sunnudaginn 7. desember, um að Ísak Steinsson markvörður Drammen hafi varið 12 skot, 34% hlutfallsmarkvörslu, eru fengnar úr tölfræði á heimasíðu norska handknattleikssambandsins. Síðan hefur verið bent á að í frétt Drammen HK frá leiknum er sagt að Ísak hafi verið með 42% hlutfallsmarkvörslu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem tölfræði leikja norska handknattleikssambandsins frá leikjum er dregin í efa. Handbolti.is hefur ekki tök á að vera fluga á vegg í öllum leikjum norsku úrvalsdeildarinnar og verður að treysta á að upplýsingar opinbera upplýsingar handknattleikssambandsins séu bærilega ábyggilegar.



