Odense Håndbold batt enda á fjögurra ára sigurgöngu Team Esbjerg í dönsku bikarkeppninni í handknattleik í gærkvöld. Að loknum miklum endaspretti vann Odense, 38:34, en liðið komst í fyrsta sinn yfir í úrslitaleiknum rúmum fimm mínútum fyrir leikslok, 31:30. Esbjerg var fjórum mörkum yfir, 17:13, eftir fyrri hálfleik. Liðið var með tögl og hagldir í 50 mínútur en missti alla stjórn á endasprettinum.
Elma Halilcevic var valin mikilvægasti leikmaður úrslitaleiksins. Hún var einnig markahæst hjá Odense-liðinu með níu mörk. Helene Fauseke var næst með sjö mörk.
Henny Reistad var markahæst hjá Esberg. Hún skoraði átta sinnum og átti auk þess sjö stoðsendingar.
Odense Håndbold varð danskur meistari í vor og er efst og taplaust í úrvalsdeildinni, stigi á undan Esbjerg sem þrátt fyrir aðeins eitt tapað stig til þessa í deildinni hefur ekki verið eins sannfærandi í leik sínum og mörg undanfarin ár.




