Einn félagi í handboltafjölskyldunni, Selfyssingurinn Árni Þór Grétarsson, er á meðal þriggja sem tilnefndur er í vali á Íþróttaeldhuga ársins 2025. (ÍSÍ), í samvinnu við Lottó, stendur fyrir kjöri á Íþróttaeldhuga ársins samhliða kjöri á Íþróttamanni ársins þann 3. janúar. Íþróttaeldhugi ársins er valinn úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni, sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarfið í sínu nærumhverfi eða á landinu öllu.
116 einstaklingar tilnefndir
Kallað var eftir tilnefningum úr hreyfingunni og frá landsmönnum og bárust alls 208 tilnefningar um 116 einstaklinga úr 25 íþróttagreinum. Úr röðum þeirra hefur sérstök valnefnd valið þrjá einstaklinga og mun einn þeirra hljóta heiðursviðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2025.
Valnefndin var skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Degi Sigurðssyni, Einari Ólafssyni, Kristínu Rós Hákonardóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur.
Þeir einstaklingar sem valnefndin valdi úr röðum tilnefninga eru í stafrófsröð:
- Árni Þór Grétarsson (handknattleikur) hefur starfað fyrir Ungmennafélag Selfoss.
- Bjarni Malmquist Jónsson (frjálsíþróttir og borðtennis), Ungmennafélaginu Vísi og formaður USÚ.
- Hugrún Hjálmarsdóttir (knattspyrna, skíði og blak) hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Hött, samstarfsvettvang FHL og UÍA.
Röskstuðning fyrir vali Árna Þórs er hér fyrir neðan:
„Árni Þór Grétarsson hefur verið ómetanlegur burðarás í handboltastarfinu á Selfossi í áratugi. Hann er alltaf til staðar, mætir á alla leiki – heima og að heiman – og tekur að sér öll þau verkefni sem þarf að sinna, hvort sem það er lýsing á leikjum, auglýsingagerð, aðstoð við ferðalög eða skipulagningu. Hann gerir þetta allt með jákvæðu hugarfari og brosi á vör.
Árni hefur séð um samfélagsmiðla, hlaðvörp, útsendingar á leikjum og verið liðstjóri bæði hjá meistaraflokki og yngri flokkum. Hann ferðast með liðum innanlands og erlendis, tekur þátt í fjáröflunum og er meira og minna í íþróttahúsinu allan daginn.
Hann er til fyrirmyndar í samskiptum og hefur haft djúpstæð áhrif á fjölda ungra iðkenda sem líta upp til hans sem fyrirmyndar og leiðtoga.
Árni Þór er dæmi um ósérhlífinn einstakling sem vinnur fyrir félagið af eldmóði og einlægri ástríðu. Hann leitar ekki eftir athygli eða hrósi, heldur vinnur af hreinni elju og hjartahlýju. Með dugnaði sínum, einlægni og góðvild hefur hann haft djúpstæð áhrif á íþróttalífið á Selfossi og verðskuldar sannarlega tilnefningu til Íþróttaeldhuga ársins 2025.“



